100 ára fæðingarafmæli Gunnars Bjarnasonar

Gunnar Bjarnason 100 ára fæðingarafmæli

Í dag 13. desember 2015 er öld síðan Gunnar Bjarnason fyrrverandi hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands fæddist en hann fæddist eins og fyrr segir hinn 13. desember árið 1915 á Húsavík. Gunnar var fjórði í röð 13 systkina sem náðu fullorðinsaldri. Foreldrar hans voru Bjarni Benediktsson útvegsmaður og póstafgreiðslumaður á Húsavík og kona hans Þórdís Ásgeirsdóttir húsfreyja.

Gunnar varð gagnfræðingur 1933, búfræðingur frá Hvanneyri 1936 og búfræðikandidat frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1939 og kynnti sér hrossarækt á Norðurlöndum frekar það sama ár. Á árunum 1962 til ´63 stundaði hann nám í alifugla- og svínarækt við sama skóla.

Gunnar var hrossaræktarráðunautur BÍ frá 1940 til 1961 og síðan um langt skeið ráðunautur um útflutning hrossa. Hann gengdi fjölmörgum öðrum störfum innan landbúnaðarins sem ekki verða nánar tíunduð að sinni.

Gunnar var fágætur brautryðjandi á sviði hestamennskunnar; hann var fyrstur til að nota tölulegan kvarða við einkunnagjöf kynbótahrossa, hvatamaður - í góðri samvinnu við þáverandi forystu LH - í stórmótahaldi og hratt af stað byltingu hvað varðar útflutning hrossa, svo nokkuð sé nefnt. Á fleiri sviðum landbúnaðarins markaði Gunnar djúp spor. Að auki var hann virkur þátttakandi í ýmsum þjóðfélagsmálum og afkastamikill í ritstörfum.

Sögusetur íslenska hestsins vottar minningu Gunnars djúpa virðingu og hyggst, í samstarfi við Landbúnaðarsafn Íslands, standa fyrir atburði til minningar um störf þessa mikilhæfa forystumanns nú á útmánuðum. Þær fyrirætlanir munu verða nánar kynntar er þar að kemur.

 

Fostöðumaður.


Svæði

SÖGUSETUR ÍSLENSKA HESTSINS SES
Hólar í Hjaltadal  |  551 Sauðárkrókur  |  sogusetur@sogusetur.is  |  Kt. 411014-1420