Magnús Sigurðsson læknir og Orðfákur
Þann 23 mars sl. náðist sá mikilvægi áfangi að orðasafnið Orðfákur varð aðgengilegt á vefsvæði Snöru, snara.is.
Magnús Sigurðsson læknir hefur lagt fram mikið hugsjónastarf við samantekt mikils orðasafns úr heimi hestamennskunnar sem nefnt er Orðfákur.
Magnús lauk læknaprófi frá HÍ 1962 og framhaldsnámi í Þýskalandi 1965, lengst af læknisferils síns var hann í Árnessýslu þar sem hann var héraðslæknir og síðar heilsugæslulæknir. Í gegnum tíðina hefur Magnús átt mörg áhugamál og eftir að hann hætti læknisstörfum einbeitti hann sér að fræðistörfum um sögu læknisfræðinnar og að Orðfáki. Til að auka færni sína við það verk innritaðist Magnús að nýju í HÍ en nú í íslensku þar sem hann lauk BA prófi árið 2005 í þeirri grein með áherslu á orðabókafræði. Jafnhliða náminu vann hann að alefli að samantekt Orðfáks.
Hugsjón Magnúsar er lengi búin að vera sú að efla áhuga á söfnun heimilda, þjóðfræðiefnis, orða o.sv.frv. um hesta og hestamennsku til að forða þessu frá gleymsku. Verkið við samantekt Orðfáks vann hann með þeim hætti að fyrst hóf hann orðtöku efnis um hesta og hestamennsku. Síðan hóf hann rannsókn á erlendum heimildum um efnið.
Í Orðfáki er að finna safn orða og orðatiltækja sem snerta hesta og hestamennsku, ýmiskonar málsögulegt efni, bókmennta- og fjölfræðiefni um hið sama. Einnig er þar að finna þýðingu norrænna, enskra og þýskra orða og hugtaka um hesta og hestamennsku.
Þann 5. febrúar árið 2010 færði Magnús Sigurðsson Sögusetri íslenska hestsins á Hólum Orfák að gjöf ásamt miklu safni gagna, bóka, blaða og tímarita íslenskra og erlendra o.fl. Sögusetrið lagði fram töluverða vinnu næstu misserin í vinnslu Orðfáks gagnvart opinberri birtingu hans og gerði í þeim tilgangi samning við Snöru þann 19. janúar 2013 um birtingu hans á netinu. Sú vinna hefur staðið yfir allar götur síðan með nokkrum hléum en nú er komið að birtingu Orðfáks og er það vonandi að sem allra flestir unnendur íslenska hestsins og íslenkrar þjóðmenningar njóti Orðfáks vel og minnist um leið eljustarfs þessa velunnara hestsins; Magnúsar Sigurðssonar. Hafi hann heila þökk fyrir sitt eljustarf.
Sögusetur íslenska hestsins