11.07.2024
Sleipnir var áttfættur hestur Óðins sem gat riðið bæði á láði og í lofti. Hann var sonur Loka og hestsins Svaðilfara. Það kom til þannig að Loki breytti sér í hryssu til að táldraga Svaðilfara en Svaðilfari var mikill og sterkur hestur í eigu bergrisa nokkurs sem kom í dulargervi til ásanna og bauð fram vinnu sína við að byggja múr sem til stóð að byggja til að víggirða Ásgarð. Hann sagðist geta unnið verkið á mun styttri tíma en ella hefði orðið. Að launum vildi bergrisinn fá Sól, Mána og Freyju. Ásunum fannst launakröfur smiðsins alltof háar. Þór var ekki heima þegar þetta kom upp. Loki kom með ráð, sagði að þeir ættu að gefa bergrisanum töluvert minni tíma til verkloka en hann hafði sett upp, sem sé bara eina árstíð í stað þriggja. Ef hann næði ekki að klára verkið fyrir þann tíma yrðu verkkaupin úr sögunni og taldi Loki að það myndi ganga eftir, æsirnir fengju mestan hluta verksins unninn og því yrði auðvelt fyrir þá að klára verkið eftir að bergrisinn væri farinn með engin laun. Þetta gekk eftir og mætti bergrisinn til vinnu og hafði með sér fák mikinn sem hét Svaðilfari til að bera grjót í múrinn. Svaðilfari bar grjót í múrinn á hverri nóttu og því varð aldrei efnisskortur við byggingu múrsins. Stefndi því í að verkinu yrði lokið á tilsettum tíma. Við það hræðist Loki því ekki vildu æsir missta Sól, Mána og Freyju, og bregður hann sér því í líki hryssu og lokkar Svaðilfara í burtu frá smiðnum og vinnu sinni. Þegar Svaðilfari var farinn sá smiðurinn fram á að hann myndi ekki ná að klára verkið, trylltist og í ljós kom að hann var í raun bergrisi eða jötunn. Þór kom á staðinn og drap bregrisann.
Löngu seinna skilaði Loki sér heim í Ásgarð með áttfættan hest sem fékk nafnið Sleipnir. Loki sagði aldrei neitt um hvaðan hesturinn kom.