Flýtilyklar
Fréttir
Ný grein á vefnum eftir forstöðumann Sögusetursins - Íþróttakeppnir skjóta rótum
30.11.2020
Í síðustu greinum höfum við dvalið nokkuð við landsmótið 1970, en þá hófst vegferð sem við skulum nú feta áfram. Árið 1970 markaði upphaf þess þróunarskeiðs innan hestamenskunnar hér á landi sem kallast hestaíþróttir, ekki í merkingunni að á hestamennskuna hafi enginn litið sem íþrótt fyrr en þá, heldur að nýjar keppnisgreinar, sem fengu samheitið hestaíþróttir, voru teknar upp og knapar, einkum af yngri kynslóðinni á þeim tíma, fóru að leggja sig eftir þeim sérstaklega. Fyrst í stað var þetta nokkuð það sem líkja mætti við „jaðaríþrótt“ sem svo jafnt og þétt sótti í sig veðrið og er í dag orðin þungamiðjan í þeim hluta hestamennskunnar sem snýst um keppni.
Lesa meira
Ný grein á vefnum eftir forstöðumann Sögusetursins - Upphaf íþróttakeppna
10.11.2020
Í síðustu grein hér á síðunni var fjallað um landsmótið á Þingvöllum 1970 sem var mjög sögulegt fyrir margra hluta sakir; vegna hinna voveiflegu atburða er þá hentu, afleits veðurs og almennt heldur slæmra aðstæðna. Bent var á í því sambandi með hve miklum ólíkindum það væri hversu oft mælikvarðar dagsins í dag eru settir á löngu liðna atburði. Á hitt er svo rétt að minna að í Morgunblaðinu kemur fram að gestir hefðu verið hvorki meira né minna en 10 þúsund manns sem þýðir að tæp 5% þjóðarinnar mættu á mótið sem jafngildir að nú myndu gestir á landsmótum vera rétt tæp 18 þúsund (!)
Þó gerðist þar atburður sem var upphaf mikillar sögu en þá fór fram forkeppni vegna þátttöku Íslands í fyrsta Evrópumeistaramótinu sem fram fór um haustið og var það upphaf mikillar sögu sem rakin verður áfram í næstu greinum.
Lesa meira
Ný grein á vefnum eftir forstöðumann Sögusetursins
07.10.2020
Við þekkjum úr daglegri umræðu að stundum er svo komist að orði, „að glasið sé hálffullt“ en líka er stundum sagt „að það sé hálftómt“, um sama glas með jafnmiklu í getur verið að ræða en orðin sem notuð eru skýrast af afstöðu þess er þau mælir. Þannig er um landsmótið 1970 sem forstöðumaður SÍH skrifar um í þessari grein og birtist á bls. 9 í 33. tbl. Feykis 2. sept. sl., mótið fór fram við afar erfiðar aðstæður; nýafstaðnir voru miklir efnahagsörðugleikar, veðráttan hafði verið slæm um árabil og hreinlega afleitt veður um mótstímann, auk þess sem mótið fór fram í skugga vofeiflegra atburða, en þeir eru hliðarsaga í greininni. Á þessum tíma var hestamennskan sem sport á frumstigi, frumherjarnir margir hverjir farnir að lýjast og atvinnumennska ekki komin til að marki, þekktist þó en snerist mest um frumtamningar og sýningar kynbótahrossa en minna um mótun keppnishrossa og reiðkennsla óþekkt, nema hvað varðar að segja börnum til um frumþætti þess að fara með hest og sitja hann. Á mótinu gerðist þó atburður sem átti eftir að verða upphaf mikillar þróunar en þá fór fram úrtaka fyrir fyrsta Evrópumótið í hestaíþróttum. Saga hinna nýju greina íþróttakeppninnar á hestum verður svo rakin í næstu blöðum.
Á myndinni má sjá vinnanda Faxabikarsins á landsmótinu 1970, Sörla frá Sauðárkróki nr. 653, knapi er Þorsteinn Jónsson tamningamaður á Akureyri. Örn Johnson forstj. FÍ stendur hjá. Ljósmynd úr safni SÍH, MÓG.
Lesa meira
Leit
Myndahornið
Fróðleiksmolinn
,,Reiðföt voru úr svörtu vaðmáli og pilsin mjög síð. Þá riðu konur í söðlum og höfðu undirdekk. Var metnaðarmál, að þau væru sem fallegust. Ólafur átti grænt undirdekk, í hornin voru saumaðar rósir og fangamark hans. Æfinlega brá hann hnút á taglið á hestinum, sem hann reið, og var það kallað að gera upp taglið."
Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna e. Ólínu Jónasdóttur, f. 1885.